Upplýsingavefur um deiliskipulagsgerð í Norður-Mjódd

Klasi hefur sett í loftið upplýsingavef um vinnu við deiliskipulagsgerð í Norður-Mjódd. Á teikniborðinu er blönduð byggð sem sem nýtur góðs af fjölbreyttri verslun og þjónustu í göngufæri. Í skipulagsvinnunni er einnig reiknað með heimild fyrir leikskóla og hjúkrunarheimili.
Unnið er með áherslur BREEAM Communities vistvottunarkerfisins í skipulagsvinnunni og því m.a. lögð áhersla á samráð við samfélagið. Á nordurmjodd.is má finna hlekk í könnun þar sem leitað er eftir skoðunum og hugmyndum varðandi íbúðarhúsnæði, sameiginleg rými, þjónustu o.fl.

Deiliskipulag í vinnslu

Klasi hefur unnið að deiliskipulagsgerð Norður-Mjóddar í góðu samráði við Reykjavíkurborg síðan 2022. Skipulagssvæðið er um 27 þúsund fermetrar og liggur samsíða Reykjanesbraut, á milli Stekkjarbakka og Álfabakka. Í Norður-Mjódd er ráðgerð ný blönduð byggð sem kemur til með að nýta vel fyrirliggjandi borgarinnviði, styðja við verslun og þjónustu sem fyrir er í hverfinu og efla mannlif.

Skipulagslýsing, byggð á stefnumótun aðalskipulags Reykjavíkur, var auglýst 2023. Síðan þá hefur verkefnið verið í mikilli mótun og stendur sú vinna enn yfir.

Stefnt er að því að deiliskipulagið verði BREEAM Communities vottað. Vinna í samræmi við staðalinn tryggir að hugað er að samfélagslegum, hagrænum og umhverfisþáttum strax frá upphafi skipulagsvinnu.

Klasi er eigandi lóðarréttinda á svæðinu. Skipulagsráðgjafar eru JVST, Landslag, Efla og Örugg verkfræðistofa.

Deiliskipulagstillaga fyrir Norður-Mjódd á vinnslustigi
Deiliskipulagstillaga fyrir Norður-Mjódd á vinnslustigi

nordurmjodd.is