Tillaga Klasa og Tendra arkitekta hlutskörpust í samkeppni um þróun að Dalvegi 1

Tillaga Klasa og Tendru arkitekta að þróun á Dalvegi 1

Klasi, í samvinnu við Tendra arkitekta, tók þátt í hugmyndasamkeppni Kópavogsbæjar um þróun Sorpulóðarinnar að Dalvegi 1. Tillaga Klasa og Tendru, sem reyndist hlutskörpust í samkeppninni, miðaði að því að mynda líflega og aðlaðandi umgjörð um skapandi greinar og verslun í nánum tengslum við náttúru og útivist Kópavogsdals. Fjölbreytt aðstaða svo sem leiksvæði og árstíðabundin tjörn sem styðja við mannlíf á svæðinu og góðum tengingum stíga við dalinn. Tillagan hefur verið kynnt í bæjarráði sem samþykkti niðurstöðu nefndar sem leggur til að Klasa verði veitt vilyrði fyrir lóðinni og hafin verði vinna að breyttu deiliskipulagi.

Kópavogsbær auglýsti á fyrri hluta árs eftir áhugasömum aðilum til að þróa lóðina að Dalvegi 1, þar sem nú er endurvinnslustöð Sorpu. Auglýst var eftir hugmyndum um fyrirhugaða starfsemi á lóðinni, áætlað byggingarmagn, tillögu að staðsetningu byggingareita, áætlun um fjármögnun lóðar og tilboð í hvern fermetra byggingarréttar. Gerð var krafa um að tekin væri mið af hugmyndum Kópavogsbæjar sem settar voru fram í skýrslu er bar heitið Heildarsýn fyrir Kópavogsdal.

Níu tillögur bárust og þótti valnefnd tillaga Klasa sterkust, vera með skýra tengingu við heildarsýn Kópavogsdals og húsnæði sem lagt er til að reist verði á Dalvegi býður upp á fjölbreytta starfsemi.

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars:

„Hugmyndafræði tillögunnar er mjög góð, heildstæð og með sterka tengingu við náttúru og útivistarsvæði Kópavogsdals. Gert er ráð fyrir fjölbreyttri starfsemi innan og utandyra, til að mynda verslanir, verkstæði, veitingastað, ísbúð, markaðssvæði og leiksvæði. Tryggir slík fjölbreytni í starfsemi líf og virkni allt árið um kring sem hefur alla burði til að stuðla að góðum staðaranda og rekstrarforsendum.“

Tekið er fram að byggingarnar verða Svansvottaðar, byggðar að mestu úr endurunnu efni, umhverfi verður í samræmi við Kópavogsdal og hugað vel að góðum tengingum stíga og gatna.

Í dómnefnd sátu Hjördís Ýr Johnson, formaður, Kristinn Dagur Gissurarson og Tryggvi Felixson.

Húsnæðið séð frá Dalvegi.

Yfirlitsmynd af tillögu Klasa og Tendra arkitekta að Dalvegi 1.


Yfirlitsmynd af tillögu Klasa og Tendra arkitekta að Dalvegi 1. Hér sjást vel göngu- og hjólateningar ásamt aðkomu bíla.