- Kópavogsbær hefur auglýst tillögu Klasa að deiliskipulagsbreytingu sem gerir ráð fyrir 80 íbúðum, skrifstofuhúsnæði, verslun og veitingum auk kjallara fyrir um 400 bíla á svæði sem nú er hluti bílastæðisins sunnan við Smáralind
- Gönguleið og sólríkt torg tengja 201 Smára við Smáralind
- Uppbygging á reitnum er lokaáfangi þróunar Klasa í 201 Smára en að honum loknum verða 738 íbúðir í 201 Smára.
- Nánari upplýsingar um skipulagið má finna á 201.is
Kópavogsbær hefur auglýst tillögu Klasa að breyttu deiliskipulagi fyrir Silfursmára 1-7, svæði sem er í dag hluti bílastæðis sunnan við Smáralind. Markmiðið með breyttu deiliskipulagi er að styrkja enn frekar miðsvæði Smárans með fjölgun íbúða og nýju framboði skrifstofuhúsnæðis ásamt því að auka lífsgæði með opnu torgi og garðsvæði, verslunum og þjónustu. Byggingarnar munu falla vel að núverandi byggð og skapa tækifæri til að móta lifandi borgarrými með góðum birtu- og veðurskilyrðum. Deiliskipulagstillagan er unnin af T.ark arkitektum og Landslagi fyrir Klasa í samstarfi við Kópavog.
Tillagan er breyting á gildandi deiliskipulagi frá árinu 2019 sem ekki hefur komið til framkvæmda. Hún gerir ráð fyrir tæplega 23.000 fermetra uppbyggingu, þar af um 15 þúsund fermetrum skrifstofu-, verslunar- og veitingahúsnæðis, um 80 íbúðum og kjallara fyrir um 400 bíla, auk bílastæða á yfirborði.
Skjólsælt líflegt bæjartorg, leikskóli og garðsvæði
Uppbyggingin tengir íbúðabyggð 201 Smára og þjónustu Smáralindar með skjólsælli gönguleið um blandaða byggð, sólríkt torg og um 800 fermetra garðsvæði með fjölbreyttum gróðri. Hluti garðsvæðisins verður leiksvæði hugsað fyrir börn á öllum aldri. Skipulagið heimilar rekstur leikskóla með opnu leiksvæði sem almenningur getur nýtt utan starfstíma.
Í miðju svæðisins rís Sunnutorg – sólríkt og líflegt bæjartorg þar sem veitingastaðir opnast út á torgið á góðviðrisdögum og rými skapast fyrir tónleika og markaði. Lægri hús í suðri og hærri byggingar í norðri og vestri skapa skjólsæla umgjörð frá morgni til kvölds.
Framhald áratugalangrar þróunar Klasa á 201 Smára
Deiliskipulagsbreytingartillagan gerir ráð fyrir að áfram verði mikill metnaður við uppbyggingu í 201 Smára og horft til áhrifa á nærliggjandi byggð. Hæðir húsa andspænis íbúðarbyggð við Silfursmára verði 3-4 hæðir og hækki norðurs. VSÓ ráðgjöf vann samgöngumat í tengslum við tillöguna.
Klasi hefur unnið að þróun og uppbyggingu 201 Smára síðan árið 2014 samkvæmt samningi við Kópavogsbæ. Á rúmum áratug hefur Klasi þróað 658 íbúðir í hverfinu og staðið að uppbyggingu 493 þeirra. Með nýja áfanganum verða 738 íbúðir í 201 Smára.

