Nýr vefur á borgarhofdi.is sýnir umfang uppbyggingar á Ártúnshöfða og í Elliðaárvogi

  • Um 8.000 nýjar íbúðir verða í borgarhlutanum, um 10% eru tilbúnar eða í byggingu.
  • Fyrsta lota Borgarlínu liggur í gegnum hverfið og stöðin við Krossamýrartorg, hjarta hverfisins, verður lykilskiptistöð.
  • Tveir samþættir leik- og grunnskólar auk safnskóla fyrir eldri grunnskólanema eru ráðgerðir í hverfinu.
  • Á borgarhofdi.is geta áhugasamir fengið lifandi mynd af því hvernig Elliðaárvogur og Ártúnshöfði tekur á sig mynd á næstu árum.

borgarhofdi.is

Nýr borgarhluti með íbúafjöldi á við Garðabæ eða Akureyri

Ártúnshöfði er nú stærsta íbúðauppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Borgarhlutinn afmarkast af Vesturlandsvegi, Höfðabakka og strandlínunni við Grafarvog og Elliðaárvog. Þegar hverfið verður fullbyggt er áætlað að íbúðir verði um 8.000 talsins og íbúar verði um 20 þúsund sem er áþekkur fjöldi og býr nú í Garðabæ eða á Akureyri. Deiliskipulag liggur fyrir vegna um 40% íbúðanna og eru um 10% íbúðanna tilbúnar eða nú í uppbyggingu.

Þar sem áður var iðnaður verður á næstu árum til líflegt borgarumhverfi með fjölbreyttum íbúðum, þjónustu og grænum svæðum. Elliðaárvogur er fallegt útivistarsvæði, með miklu útsýni og nálægð við sjóinn og af Höfðanum er mikið útsýni.

Nýja hverfið mun tengja saman borg og náttúru — þar sem grænar gönguleiðir liggja meðfram strandlengjunni og Elliðaám og íbúar njóta nálægðar við bæði miðborgina og helstu útivistarsvæði borgarinnar.

Nýr miðbær austurborgarinnar

Krossamýrartorg verður kjarni þessa nýja borgarhluta með menningar- og samfélagshúsi, fjölbreyttri verslun, veitingum, líkamsrækt, afþreyingu og þjónustu auk skrifstofuhúsnæðis. Hagar hafa þegar tryggt sér húsnæði fyrir Bónusverslun við torgið.  Öflugar almenningssamgöngur eru að Höfðanum auk þess sem nærliggjandi stofnbrautir veita greitt aðgengi að rúmlega 900 stæðum í kjallara sem verður við Krossamýrartorgi.

Markmiðið er að Krossamýrartorg verði nýr miðpunktur austurborgarinnar — staður þar sem fólk hittist, nýtur kaffis á sólríkum degi eða heimsækir nýjan borgargarð norðan við Krossamýrartorg. Hverfið verður í senn heimili og áfangastaður, með rólegum íbúðagötum og líflegum kjarna þar sem mannlíf getur þrifist allt árið um kring.

Borgarlína og nýir leik- og grunnskólar

Samkvæmt deiliskipulagi er gert ráð fyrir að á svæðinu rísi a.m.k. tveir samþættir leik- og grunnskólar ásamt safnskóla fyrir eldri grunnskólanema. Skólarnir eru skipulagðir við grænan gönguás sem liðast í gegnum hverfið með áningarstöðum og leiksvæðum sem skapa saman grænt og lífvænlegt umhverfi.

Fyrsta lota Borgarlínu mun þvera hverfið frá árinu 2031. Í framtíðinni verður Krossamýrartorg skiptistöð fyrir þrjár Borgarlínuleiðir sem tengja munu hverfið enn betur við aðra borgarhluta. Göngu- og hjólastígar meðfram borgarlínu auðvelda bílléttan lífsstíl enn frekar.

Um 700 íbúðir nú í uppbyggingu

Klasi sem er stærsti uppbyggingaraðili á Borgarhöfða og vann að skipulagi svæðis með Reykjavíkurborg, hefur nú sett í loftið vef, borgarhofdi.is, þar sem almenningur getur kynnt sér allt hvað varðar hverfið og uppbyggingu þess.

Klasi hóf kaup á fasteignum á Ártúnshöfða fyrir rúmlega 20 árum. Árið 2017 urðu kaflaskil en þá gaf Reykjavíkurborg út rammaskipulag fyrir svæðið sem lagði grunn að breyttu byggðamynstri og nýrri landnotkun, þ.e. fyrst og fremst íbúðabyggð.  Fljótlega í kjölfarið hófu Klasi, ASK arkitektar og fleiri að vinna með Reykjavíkurborg að deiliskipulagi fyrir fyrsta uppbyggingarsvæðið en það tók gildi árið 2022. Klasi vinnur nú að uppbyggingu á svæðinu ásamt öðrum þróunaraðilum sem margir hafa keypt lóðir af Klasa.

Um Klasa

Klasi er fasteignaþróunarfélag sem sérhæfir sig í þróun, stýringu og rekstri fasteignaverkefna, allt frá hugmynd að sölu. Rekstrarsaga félagsins spannar yfir tuttugu ár og hefur Klasi á þeim tíma byggt upp reynslu og þekkingu á allri virðiskeðju fasteignaþróunar, bæði á sviði íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Á meðal verkefna Klasa eru skipulagning, þróun og uppbygging á 201 Smára sem er um 600 íbúða hverfi sunnan við Smáralind, uppbygging nýrra verslunarrýma og íbúða við Garðatorg auk ýmissa þróunar- og uppbyggingarverkefna.

 

Nánari upplýsingar veitir Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa í 891 7601 eða ingvi@klasi.is.