Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri tók í dag, 25. apríl 2025, fyrstu skóflustungu að 133 íbúða byggingu á vegum fasteignaþróunarfélagsins Klasa á Borgarhöfða. Klasi hefur unnið að þróunarvinnu á svæðinu undanfarin ár og eru nú þegar um 400 íbúðir í framkvæmdum á vegum verktaka á þróunarsvæði Klasa. Um er að ræða fyrstu framkvæmd Klasa á svæðinu en til viðbótar sér Klasi fyrir sér að reisa um 700 íbúðir til viðbótar auk verslunar og skrifstofuhúsnæðis á næstu árum.
Áætlað er að þetta nýja borgarhverfi, sem mun rísa í nokkrum áföngum á næstu árum, komi til með að hýsa allt að 20.000 íbúa. Svæðið hefur undanfarna áratugi verið iðnaðarsvæði, en umbreytist nú í nútímalegt borgarhverfi með íbúðum, verslunum, þjónustu og atvinnu. Verkefnið byggir á metnaðarfullri framtíðarsýn Reykjavíkurborgar um þéttingu byggðar við borgarlínuás, en reiknað er með að tvær borgarlínustöðvar verði í hverfinu.
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri: „Það er ánægjulegt að sjá verkefnið við Borgarhöfða verða að veruleika og ég er sannfærð um að svæðið í heild sinni muni hafa jákvæð áhrif á borgarlífið. Höfðinn er eitt stærsta íbúðauppbyggingasvæði okkar og í náinni framtíð rísa hér hátt í sjö þúsund heimili sem geta hýst um og yfir 20 þúsund íbúa Reykjavíkur. Hverfið kemur til með að bjóða upp á mikil lífsgæði og þetta verkefni á vegum Klasa er mikilvægur áfangi á þeirri vegferð sem framundan er. Nú er Höfðinn smátt og smátt að taka á sig nýja mynd og þessi nýbygging 133 íbúða verður hverfinu án vafa til mikils sóma.“
Fasteignaþróunarfélagið Klasi hefur átt í nánu samstarfi við Reykjavíkurborg og aðra hagsmunaaðila síðan félagið hóf að fjárfesta á svæðinu fyrir um 20 árum. Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir að Ártúnshöfði hafi verið frábær staður fyrir iðnað þegar svæðið stóð utan íbúðabyggðar. Nú sé svæðið miðsvæðis og kominn tími til að aðlaga nýjum aðstæðum og því tímabært að skila þessu fallega svæði aftur til íbúa.
„Við viljum byggja hverfi þar sem fólk getur notið þess að vera miðsvæðis í höfuðborginni, með verslun, þjónustu og jafnvel vinnustaðinn innan seilingar. Borgarhöfði er í göngufæri við náttúruperlur eins og Elliðaárdalinn og sjávarsíðuna. Hönnun hverfisins endurspeglar þessa nálægð við náttúruna,“ segir Ingvi.


Íbúðirnar að Eirhöfða 8, en húsið er hannað af Tendra arkitektum, verða fjölbreyttar að stærð og gerð og ætlaðar ýmsum fjölskyldumynstrum og ólíkum aldursskeiðum. Unnið er að þróun um 100 herbergja hjúkrunarheimilis og 160 íbúða fyrir 60+.
Innan Klasa er mikil þekking á fasteignaþróun, félagið lauk m.a. nýlega við þróun og uppbyggingu um 700 íbúða hverfis í 201 Smára, sunnan við Smáralind í Kópavogi, auk þess að vinna nú skipulagsvinnu vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Norður-Mjódd svo dæmi sé tekið.