Silfursmári 1-7

Atvinnulóð með íbúðum við Smáralind

Klasi hefur lagt fram tillögu að breytingu deiliskipulags fyrir Silfursmára 1-7, svæði sem er í dag hluti bílastæðis sunnan við Smáralind. Tillagan gerir ráð fyrir tæplega 23 þúsund fermetra uppbyggingu, bæði atvinnuhúsnæði og um 80 íbúðum auk kjallara fyrir um 400 bíla. Markmiðið er að styrkja svæðiskjarnann og tengja 201 Smára við Smáralind með blandaðri byggð, skjólsælli gönguleið, sólríku torgi og garðsvæði með skúlptúrísku leiksvæði og fjölbreyttum gróðri.
Tillagan gerir ráð fyrir að nýjar byggingar andspænis íbúðarhúsum við Silfursmára verði 2-4 hæðir en næst Smáralind er reiknað með 10 til 11 hæða íbúðahúsum. Uppbygging reitsins hefur staðið til lengi og er tillagan sem nú er lögð fram breyting á deiliskipulagi sem ekki var komið til framkvæmda. Skipulags- og umhverfisráð Kópavogs samþykkti þann 7. júlí s.l. að tillagan yrði auglýst og var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs.